fimmtudagur, 24. maí 2007

Þankakrókurinn

hugs... hugs...

Ég hef stundum verið sökuð um að hugsa of mikið... hvort það má teljast til kosta eða lasta er erfitt að segja, sjálfsagt sitt lítið af hvoru. En mér verður oftar en ekki minnisstæður þankakrókurinn hans Bangsimons með tvist í tróð, þar sem hann situr þungur á brún, slær sér á höfuð og kyrjar "hugs, hugs". Þannig upplifi ég mig oft á tíðum þegar ég er að sortera eitthvað í kollinum á mér, sem ég virðist hafa mikla þörf fyrir. Hver árangurinn er... ja, það er allt annar handleggur. Þess vegna ætla ég að skapa minn eigin þankakrók, ekki í hundrað-metra-skógi, heldur hér í netheimum. Blessunin litla, hann Bangsímon, má segja vera mér til fyrirmyndar og því vel við hæfi að hefja þankaganginn á hans orðum.

þriðjudagur, 22. maí 2007

Sýnishorn af ljóðum

Endurfæðing

Um draumalendur ljóðsins

svífur sál mín endurborin


Skömm

Þá þegar

hafði mér birzt hin fagra ásjóna
hennar
er hafði fjötrað mig í draumi

Það var upphafið
af viðskilum hjarta míns
við þitt

Og dómur minn
var skömmin
er hún sveik mig
og hló


Ástin

Ástin var sköpuð

til að vernda mig sannleikanum
er annars myrkvaði mér sýn


Meðan álfarnir dansa

Leika stjörnur um himinhvolf alheimsins

meðan álfarnir dansa
við blikandi bál örlaganna
og framtíðin er rituð
í reykbólstrana er líða til himins

Og handan fjallanna býr mannkyn eitt
þar sem stjörnurnar halda þögn sína
og örlagabálið hefur slokknað
í skjóli borgarljósanna.


Morgunn

Sem örsmár dropi

í haf tímans
líður augnablikið um huga mér
er ég horfi á skipin er sigla að morgni
reisa segl sín við höfnina
og kasta kveðju sinni
á sofandi bæinn
meðan gullinn andvari dagrenningar
líður eins og draumkennd slæða
yfir fjöllin er gæta þessarar stundar
og sólin breiðir hæglát
geisla sína yfir hafið
allt til ystu marka
sjóndeildarhringsins


Piltur og stúlka

Í ofboði brá stúlkan sér í flíkur

er hún sá piltinn nálgast
Með hjarta sitt á silfurfati
- slaufu um það vafið

Hún fór og sótti inniskóna
til að færa honum í staðinn


Til þín

Sem stjarna á næturhimni

skín gleði tilveru minnar
Í órafjarlægð frá þeirri stund
er þú uppgötvar mig
og skilningur þinn á orði mínu
kveikir þinn eigin neista

Fyrsta bloggið

Ég hef lengi velt fyrir mér hvort ég hefði einhverja ástæðu til að blogga, neee... fann enga og lét það kyrrt liggja. En eftir því sem ég læri að opna mig meira gagnvart umheiminum og njóta lífsins í stað þess að kúldrast ein í mínu horni með mínar hugsanir, sé ég að þetta getur verið þræl-gaman. Ég hef átt margar góðar stundir yfir bloggi hjá vinum og vandalausum, þannig að... hví ekki ? :)
Vissulega má búast við að hingað rati ekkert nema klambur og vitleysa, en hvað um það... ekki er ég fullkomnari en nokkur annar :) Ég vafra um draumalendur lífsins og leitast við að njóta þess sem þar er að finna.
Svo er bara að sjá hvort ég stend við það að halda þessu úti ? Það verður tíminn að leiða í ljós !

Lifið heil :)