mánudagur, 11. júní 2007

Úr gönguferðum

Mér þykir ákaflega gaman að ganga. Og nú er ég loks farin að muna eftir að taka blessaða myndavélina með :)
Hér eru einhverjar myndir úr umhverfi Eyjafjarðar síðusta göngutúra :)

Þessi er tekin af bæjarhúsinu á Skipalóni
Hér má líta hlaðið að Skipalóni, notalegt, sögulegt og barnvænt umhverfi þaðÞessi er tekin í hlíðum Vaðlaheiðar, gegnt Akureyri. Þessi lækur hverfur brátt undir vegagerð að miklu leiti.

sunnudagur, 10. júní 2007

Þankakrókurinn - netvæðing einkalífsins

hugs... hugs...


Ég lenti fyrir skemmstu í áhugaverðri umræðu um samskipti kynjana á netinu, eða netvæðingu einkalífsins eins og ég kýs að kalla þennan málaflokk í heild sinni. Staðreyndin er sú að í dag er hægur vandi að stunda nær öll sín samskipti við hitt kynið, eða hið sama ef svo ber undir, á netinu. Ef ég vel þá leið þarf ég einfaldlega að skrá mig á einhverja einkamálasíðuna, undir dulnefni ef ég kýs svo. Þar get ég vinsað úr ógrynni misfagurra samskiptamáta við aðrar manneskjur og komist í nánari kynni við. Þaðan liggur leiðin inn á spjallforrit þar sem ég get stundað net-spjall, net-stefnumót, net-kynlíf, net-samband og hvað annað sem ég kýs, jafnvel gæti ég skellt mér á net-fyllerí með einhverjum. Og það allra besta er að engu skiptir hvar í heiminum viðkomandi er.


En þessi umræða var nú ekki kveikjan að þankagangi mínum að þessu sinni. Heldur og ummæli sem vinkona mín kom með nú á allra síðustu dögum. Hún hefur eins og svo margir nýtt sér tæknina til að komast í kynni við einstaklinga af hinu kyninu og margfalda þannig möguleika sína á að finna einhvern álitlegan til að verja tíma sínum með í framtíðinni. Nýverið hitti hún vænlegan kost, og það ekki í gegnum netið - heldur í gegnum aðra vinkonu, sem telja má víst fremur fornfálegt þessa dagana.


Upplifun hennar var alveg ný af nálinni og svo að henni þótti efni til að deila með mér... í fyrsta sinn var hún að upplifa gildi snertingar og nándar, án tillits til "kynlífs" eins og flestir vilja túlka það. Það kom á mig við að heyra þetta, umrædd vinkona mín hefur jú verið í samböndum til lengri tíma og því þótti mér hið sjálfsagðasta mál að hún hefði upplifað gefandi samvistir við sína félaga og maka. En þarna rann upp fyrir mér að mikill fjöldi fólks upplifir ekki þá gefandi tilfinningu sem nándin veitir og hefur jafnvel aldrei gert.


Sjálf get ég ekki hugsað mér samvistir við félaga eða maka án nándar og samband er í mínum huga eitthvað sem báðir eru tilbúnir að vinna að, hreinskilin og nærandi samskipti tveggja einstaklinga með gagnkvæmri virðingu og tilfinningalegum tengslum, snertingu og nánd.


Mitt í netvæðingu einkalífsins held ég að þess verði að gæta að tapa ekki með öllu af persónulegum samskiptum og augnablikum sem gera samvistir tveggja einstaklinga að sambandi. Á síðasta ári rakst ég á litla bók sem mig langar að mæla með fyrir alla sem eru að velta fyrir sér eiginleikum sambanda. Þessi bók vekur manni umhugsun hvort heldur í sjálfskoðun, vangaveltum um lífið og samskipti, eða sem ágætis mælikvarði á það hvort sambandið sem maður er í sé það nærandi samband sem leitað er.


Bókin góða fæst víða í bókabúðum:

Barbara De Angelis, Ph.D. Sönn augnablik elskenda. Útgefin af Leiðarljósi ehf. í þýðingu Guðrúnar G. Bergmann.


Munið að brosa, það kostar ekkert og getur bjargað degi þess sem móttekur það. Bros gefur kærleik og sá sem gefur kærleik er líklegri til að móttaka kærleik :)

fimmtudagur, 24. maí 2007

Þankakrókurinn

hugs... hugs...

Ég hef stundum verið sökuð um að hugsa of mikið... hvort það má teljast til kosta eða lasta er erfitt að segja, sjálfsagt sitt lítið af hvoru. En mér verður oftar en ekki minnisstæður þankakrókurinn hans Bangsimons með tvist í tróð, þar sem hann situr þungur á brún, slær sér á höfuð og kyrjar "hugs, hugs". Þannig upplifi ég mig oft á tíðum þegar ég er að sortera eitthvað í kollinum á mér, sem ég virðist hafa mikla þörf fyrir. Hver árangurinn er... ja, það er allt annar handleggur. Þess vegna ætla ég að skapa minn eigin þankakrók, ekki í hundrað-metra-skógi, heldur hér í netheimum. Blessunin litla, hann Bangsímon, má segja vera mér til fyrirmyndar og því vel við hæfi að hefja þankaganginn á hans orðum.

þriðjudagur, 22. maí 2007

Sýnishorn af ljóðum

Endurfæðing

Um draumalendur ljóðsins

svífur sál mín endurborin


Skömm

Þá þegar

hafði mér birzt hin fagra ásjóna
hennar
er hafði fjötrað mig í draumi

Það var upphafið
af viðskilum hjarta míns
við þitt

Og dómur minn
var skömmin
er hún sveik mig
og hló


Ástin

Ástin var sköpuð

til að vernda mig sannleikanum
er annars myrkvaði mér sýn


Meðan álfarnir dansa

Leika stjörnur um himinhvolf alheimsins

meðan álfarnir dansa
við blikandi bál örlaganna
og framtíðin er rituð
í reykbólstrana er líða til himins

Og handan fjallanna býr mannkyn eitt
þar sem stjörnurnar halda þögn sína
og örlagabálið hefur slokknað
í skjóli borgarljósanna.


Morgunn

Sem örsmár dropi

í haf tímans
líður augnablikið um huga mér
er ég horfi á skipin er sigla að morgni
reisa segl sín við höfnina
og kasta kveðju sinni
á sofandi bæinn
meðan gullinn andvari dagrenningar
líður eins og draumkennd slæða
yfir fjöllin er gæta þessarar stundar
og sólin breiðir hæglát
geisla sína yfir hafið
allt til ystu marka
sjóndeildarhringsins


Piltur og stúlka

Í ofboði brá stúlkan sér í flíkur

er hún sá piltinn nálgast
Með hjarta sitt á silfurfati
- slaufu um það vafið

Hún fór og sótti inniskóna
til að færa honum í staðinn


Til þín

Sem stjarna á næturhimni

skín gleði tilveru minnar
Í órafjarlægð frá þeirri stund
er þú uppgötvar mig
og skilningur þinn á orði mínu
kveikir þinn eigin neista

Fyrsta bloggið

Ég hef lengi velt fyrir mér hvort ég hefði einhverja ástæðu til að blogga, neee... fann enga og lét það kyrrt liggja. En eftir því sem ég læri að opna mig meira gagnvart umheiminum og njóta lífsins í stað þess að kúldrast ein í mínu horni með mínar hugsanir, sé ég að þetta getur verið þræl-gaman. Ég hef átt margar góðar stundir yfir bloggi hjá vinum og vandalausum, þannig að... hví ekki ? :)
Vissulega má búast við að hingað rati ekkert nema klambur og vitleysa, en hvað um það... ekki er ég fullkomnari en nokkur annar :) Ég vafra um draumalendur lífsins og leitast við að njóta þess sem þar er að finna.
Svo er bara að sjá hvort ég stend við það að halda þessu úti ? Það verður tíminn að leiða í ljós !

Lifið heil :)