þriðjudagur, 15. júlí 2008

Eitt ónefnt úr eldra safni

Daggartár fellur af laufi þínu
og glitrar á er það lendir mjúklega í lófa mér
það er lífið sjálft
og ég umlyk það höndum
svo megi það dafna um stund
uns tími er kominn að veita því frelsi á ný

er ég lýk upp lófa mínum
flögrar þar litfagurt fiðrildi
til himins og frjálst

miðvikudagur, 2. júlí 2008

Nýtt líf

Hvað er svo ljúft
sem vermandi geisli
sólar í aftureldingu
Sem brum í þroska
er loforð um kviknandi líf
líkt og nýfundin ást
sem enn á eftir að blómstra

þriðjudagur, 1. júlí 2008

Grímsey


Ég skrapp til Grímseyjar um helgina eins og hver annar ferðalangur með bakpokann á öxlunum og ekkert annað. Þetta er einn af þessum stöðum sem mig hefur alltaf langað að heimsækja og ég ákvað að láta slag standa og stíga fæti norður yfir heimskautsbaug. Enda sé ég ekki eftir því þó veðrið hafi nú verið frekar suddalegt. Grímsey er hrein náttúruperla fyrir útivistarmanninn, paradís fuglaskoðunarmannsins og þar er yndislegt mannlíf. Þarna búa ríflega 90 manns að staðaldri og fiskveiðar eru lífæð þessa notalega litla samfélags. Upplifunin er sú að maður sé langt frá hringiðu heimsins þó aðeins sé þetta steinsnar undan ströndu landsins, eða um hálftíma flug frá Akureyri.


Svo skemmtilega vildi til að ég hitti á afmælismót Sjóstangveiðifélags Akureyrar og því hitti ég þarna fullt af skemmtilegu fólki og gamla kunningja. Á meðan veiðin var í fullum gangi gekk ég hringinn um eyjuna ásamt yndælis konu sem ég kynntist og var þarna ásamt eiginmanni sínum á mótinu. Skarfakál vex þarna um allar trissur og má finna hvar sem er, á bjargbrúnum, innan um grasmóana og meðfram húsveggjum. Mér hefði ekki endst minna en vika hið minnsta í að greina allar þær fuglategundir sem urðu á vegi mínum, en björgin eru krökk af fugli og er lundi þar í yfirgnæfandi meirihluta, einnig mátti sjá álku og teistu auk mávategunda svo eitthvað sé nefnt.
Seinni part dagsins var svo farið til að taka á móti bátunum, þangað mættu allir, stórir sem smáir. Bryggjan iðaði af mannlífi þegar komið var í höfn með sjóbarða veiðimennina og aflanum var landað meðan sígild sjómannalög ómuðu í bakgrunni.Mæli með Grímsey við alla sem ekki hafa látið af verða að koma þangað !