miðvikudagur, 25. júní 2008

Sumarsólstöður

Ég á það til að taka mig upp um sumarsólstöður og skreppa í útilegu í Skagafjörðinn til að njóta útsýnisins og náttúrunnar, tjalda einhversstaðar í grennd við ættaróðalið og tæma hugann algerlega fjarri allri mannlegri umferð.
Þetta árið varð ég að fresta för þar sem ég lá föst heima í fremur bagalegri kvefflensu, en ég bætti úr því með því að skella mér í "Jónsmessuferð" í staðinn. Tilgangurinn með ferðinni var ekki að leita dulinna töfra, heldur til að finna hina fullkomnu kyrrð í litadýrð hinnar íslensku sumarnætur.
Mér finnst fátt yndislegra en að vera úti í guðsgrænni náttúrunni, heyra ekkert annað en kvakið í fuglum og lækjarnið eða öldugjálfur, finna hvernig hugurinn hreinsast af hversdagslegum ama og værðin færist yfir. Ég tjaldaði í fjörukambi við Höfðaströnd að þessu sinni, fann þar smá grasbala sem nægði til að mýkja annars fremur óreglulegt undirlagið og sofnaði ljúft við náttúrunnar söng.
En ég gerði meira en að sofa þarna í náttúrunnar paradís. Það þætti nú ekki við hæfi annað en að smella nokkrum myndum af dásemdunum, þar sem sólin leikur sér í einfaldleika sínum og varpar nýju ljósi á allt umhverfið.

Að lokum - munið að jákvæðni dregur að sér góða hluti :) Verum jákvæð !

mánudagur, 23. júní 2008

Draumur á Jónsmessunótt

Nú er framundan hin kyngimagnaða Jónmessunótt. Ein þeirra nátta sem samkvæmt þjóðtrúnni er töfrum gædd og huldar verur fara á stjá, óskasteinar birtast á yfirborði jarðar og döggin öðlast lækningarmátt. Ein þeirra fjögurra nátta ársins þar sem allt getur gerst.
Þá er best að velja vel hvar dvelja skal á miðnætti. Munu kýrnar mæla sem menn? Verða huldufólk og álfar á vegi þess er dvelur á krossgötum? Munu óskasteinar glóa í þeirri von um að einhver rambi fram á þá? Mun sá er veltir sér nakinn upp úr dögginni fá allra sinna meina bót? Eða breytist lífið allt í slungið ævintýri á borð það sem gerist í einu af snilldarverkum Shakespeare "A Midsummer Night´s Dream"? Ja, hver veit? Eitt er þó víst að töfrar sýna sig aðeins þeim sem á þá trúir. Að sama skapi og draumar rætast aðeins þeim sem trúa því að þeir geti orðið að veruleika. Þetta er því eingöngu spurning um að líta í eigin barm og kanna hvað þar er að finna, hvort þar finnist trú á hið yfirnáttúrulega í sjálfum okkur. Ef svo er er um að gera að athuga hvort veröldin breytir um ham og gefur okkur innsýn í þennan draumaheim sem nóttin er talin bera í skauti sér.
Sjáum svo til hvað gerist og eigið góðar stundir á Jónsmessunótt, sem og ávallt :)
Fyrir þá sem vilja kynna sér frekar sagnir um Jónsmessunótt og aðrar töfrastundir bendi ég á http://visindavefur.hi.is/ sem og þjóðsögur Jóns Árnasonar og annarra. Verk Shakespeare´s má hvort sem er leigja á næstu myndbandaleigu eða finna í fullri útgáfu á slóðinni:

sunnudagur, 22. júní 2008

Komin á ról

Jæja, þá er ég vöknuð úr dvala og komin á ról. Það er vel við hæfi að byrja á að setja inn nokkrar myndir úr síðasta göngutúrnum mínum, sem ég fór um skjálftasvæðið á suðurlandi á dögunum.


Víða mátti sjá skriður og grjóthrun, þetta bjarg setti svip sinn á austurhlíð Ingólfsfjalls.


Skemmtilegar hraðahindranir á slóðanum undir Ingólfsfjalli sunnan til


Fleytikerlingar niður brekkuna


Hrun í Silfurbergi

Kyrrlátt yfir að líta titrandi jörð


Skemmugafl á Eyrarbakka