þriðjudagur, 15. júlí 2008

Eitt ónefnt úr eldra safni

Daggartár fellur af laufi þínu
og glitrar á er það lendir mjúklega í lófa mér
það er lífið sjálft
og ég umlyk það höndum
svo megi það dafna um stund
uns tími er kominn að veita því frelsi á ný

er ég lýk upp lófa mínum
flögrar þar litfagurt fiðrildi
til himins og frjálst

miðvikudagur, 2. júlí 2008

Nýtt líf

Hvað er svo ljúft
sem vermandi geisli
sólar í aftureldingu
Sem brum í þroska
er loforð um kviknandi líf
líkt og nýfundin ást
sem enn á eftir að blómstra

þriðjudagur, 1. júlí 2008

Grímsey


Ég skrapp til Grímseyjar um helgina eins og hver annar ferðalangur með bakpokann á öxlunum og ekkert annað. Þetta er einn af þessum stöðum sem mig hefur alltaf langað að heimsækja og ég ákvað að láta slag standa og stíga fæti norður yfir heimskautsbaug. Enda sé ég ekki eftir því þó veðrið hafi nú verið frekar suddalegt. Grímsey er hrein náttúruperla fyrir útivistarmanninn, paradís fuglaskoðunarmannsins og þar er yndislegt mannlíf. Þarna búa ríflega 90 manns að staðaldri og fiskveiðar eru lífæð þessa notalega litla samfélags. Upplifunin er sú að maður sé langt frá hringiðu heimsins þó aðeins sé þetta steinsnar undan ströndu landsins, eða um hálftíma flug frá Akureyri.


Svo skemmtilega vildi til að ég hitti á afmælismót Sjóstangveiðifélags Akureyrar og því hitti ég þarna fullt af skemmtilegu fólki og gamla kunningja. Á meðan veiðin var í fullum gangi gekk ég hringinn um eyjuna ásamt yndælis konu sem ég kynntist og var þarna ásamt eiginmanni sínum á mótinu. Skarfakál vex þarna um allar trissur og má finna hvar sem er, á bjargbrúnum, innan um grasmóana og meðfram húsveggjum. Mér hefði ekki endst minna en vika hið minnsta í að greina allar þær fuglategundir sem urðu á vegi mínum, en björgin eru krökk af fugli og er lundi þar í yfirgnæfandi meirihluta, einnig mátti sjá álku og teistu auk mávategunda svo eitthvað sé nefnt.
Seinni part dagsins var svo farið til að taka á móti bátunum, þangað mættu allir, stórir sem smáir. Bryggjan iðaði af mannlífi þegar komið var í höfn með sjóbarða veiðimennina og aflanum var landað meðan sígild sjómannalög ómuðu í bakgrunni.Mæli með Grímsey við alla sem ekki hafa látið af verða að koma þangað !

miðvikudagur, 25. júní 2008

Sumarsólstöður

Ég á það til að taka mig upp um sumarsólstöður og skreppa í útilegu í Skagafjörðinn til að njóta útsýnisins og náttúrunnar, tjalda einhversstaðar í grennd við ættaróðalið og tæma hugann algerlega fjarri allri mannlegri umferð.
Þetta árið varð ég að fresta för þar sem ég lá föst heima í fremur bagalegri kvefflensu, en ég bætti úr því með því að skella mér í "Jónsmessuferð" í staðinn. Tilgangurinn með ferðinni var ekki að leita dulinna töfra, heldur til að finna hina fullkomnu kyrrð í litadýrð hinnar íslensku sumarnætur.
Mér finnst fátt yndislegra en að vera úti í guðsgrænni náttúrunni, heyra ekkert annað en kvakið í fuglum og lækjarnið eða öldugjálfur, finna hvernig hugurinn hreinsast af hversdagslegum ama og værðin færist yfir. Ég tjaldaði í fjörukambi við Höfðaströnd að þessu sinni, fann þar smá grasbala sem nægði til að mýkja annars fremur óreglulegt undirlagið og sofnaði ljúft við náttúrunnar söng.
En ég gerði meira en að sofa þarna í náttúrunnar paradís. Það þætti nú ekki við hæfi annað en að smella nokkrum myndum af dásemdunum, þar sem sólin leikur sér í einfaldleika sínum og varpar nýju ljósi á allt umhverfið.

Að lokum - munið að jákvæðni dregur að sér góða hluti :) Verum jákvæð !

mánudagur, 23. júní 2008

Draumur á Jónsmessunótt

Nú er framundan hin kyngimagnaða Jónmessunótt. Ein þeirra nátta sem samkvæmt þjóðtrúnni er töfrum gædd og huldar verur fara á stjá, óskasteinar birtast á yfirborði jarðar og döggin öðlast lækningarmátt. Ein þeirra fjögurra nátta ársins þar sem allt getur gerst.
Þá er best að velja vel hvar dvelja skal á miðnætti. Munu kýrnar mæla sem menn? Verða huldufólk og álfar á vegi þess er dvelur á krossgötum? Munu óskasteinar glóa í þeirri von um að einhver rambi fram á þá? Mun sá er veltir sér nakinn upp úr dögginni fá allra sinna meina bót? Eða breytist lífið allt í slungið ævintýri á borð það sem gerist í einu af snilldarverkum Shakespeare "A Midsummer Night´s Dream"? Ja, hver veit? Eitt er þó víst að töfrar sýna sig aðeins þeim sem á þá trúir. Að sama skapi og draumar rætast aðeins þeim sem trúa því að þeir geti orðið að veruleika. Þetta er því eingöngu spurning um að líta í eigin barm og kanna hvað þar er að finna, hvort þar finnist trú á hið yfirnáttúrulega í sjálfum okkur. Ef svo er er um að gera að athuga hvort veröldin breytir um ham og gefur okkur innsýn í þennan draumaheim sem nóttin er talin bera í skauti sér.
Sjáum svo til hvað gerist og eigið góðar stundir á Jónsmessunótt, sem og ávallt :)
Fyrir þá sem vilja kynna sér frekar sagnir um Jónsmessunótt og aðrar töfrastundir bendi ég á http://visindavefur.hi.is/ sem og þjóðsögur Jóns Árnasonar og annarra. Verk Shakespeare´s má hvort sem er leigja á næstu myndbandaleigu eða finna í fullri útgáfu á slóðinni:

sunnudagur, 22. júní 2008

Komin á ról

Jæja, þá er ég vöknuð úr dvala og komin á ról. Það er vel við hæfi að byrja á að setja inn nokkrar myndir úr síðasta göngutúrnum mínum, sem ég fór um skjálftasvæðið á suðurlandi á dögunum.


Víða mátti sjá skriður og grjóthrun, þetta bjarg setti svip sinn á austurhlíð Ingólfsfjalls.


Skemmtilegar hraðahindranir á slóðanum undir Ingólfsfjalli sunnan til


Fleytikerlingar niður brekkuna


Hrun í Silfurbergi

Kyrrlátt yfir að líta titrandi jörð


Skemmugafl á Eyrarbakka

mánudagur, 11. júní 2007

Úr gönguferðum

Mér þykir ákaflega gaman að ganga. Og nú er ég loks farin að muna eftir að taka blessaða myndavélina með :)
Hér eru einhverjar myndir úr umhverfi Eyjafjarðar síðusta göngutúra :)

Þessi er tekin af bæjarhúsinu á Skipalóni
Hér má líta hlaðið að Skipalóni, notalegt, sögulegt og barnvænt umhverfi þaðÞessi er tekin í hlíðum Vaðlaheiðar, gegnt Akureyri. Þessi lækur hverfur brátt undir vegagerð að miklu leiti.

sunnudagur, 10. júní 2007

Þankakrókurinn - netvæðing einkalífsins

hugs... hugs...


Ég lenti fyrir skemmstu í áhugaverðri umræðu um samskipti kynjana á netinu, eða netvæðingu einkalífsins eins og ég kýs að kalla þennan málaflokk í heild sinni. Staðreyndin er sú að í dag er hægur vandi að stunda nær öll sín samskipti við hitt kynið, eða hið sama ef svo ber undir, á netinu. Ef ég vel þá leið þarf ég einfaldlega að skrá mig á einhverja einkamálasíðuna, undir dulnefni ef ég kýs svo. Þar get ég vinsað úr ógrynni misfagurra samskiptamáta við aðrar manneskjur og komist í nánari kynni við. Þaðan liggur leiðin inn á spjallforrit þar sem ég get stundað net-spjall, net-stefnumót, net-kynlíf, net-samband og hvað annað sem ég kýs, jafnvel gæti ég skellt mér á net-fyllerí með einhverjum. Og það allra besta er að engu skiptir hvar í heiminum viðkomandi er.


En þessi umræða var nú ekki kveikjan að þankagangi mínum að þessu sinni. Heldur og ummæli sem vinkona mín kom með nú á allra síðustu dögum. Hún hefur eins og svo margir nýtt sér tæknina til að komast í kynni við einstaklinga af hinu kyninu og margfalda þannig möguleika sína á að finna einhvern álitlegan til að verja tíma sínum með í framtíðinni. Nýverið hitti hún vænlegan kost, og það ekki í gegnum netið - heldur í gegnum aðra vinkonu, sem telja má víst fremur fornfálegt þessa dagana.


Upplifun hennar var alveg ný af nálinni og svo að henni þótti efni til að deila með mér... í fyrsta sinn var hún að upplifa gildi snertingar og nándar, án tillits til "kynlífs" eins og flestir vilja túlka það. Það kom á mig við að heyra þetta, umrædd vinkona mín hefur jú verið í samböndum til lengri tíma og því þótti mér hið sjálfsagðasta mál að hún hefði upplifað gefandi samvistir við sína félaga og maka. En þarna rann upp fyrir mér að mikill fjöldi fólks upplifir ekki þá gefandi tilfinningu sem nándin veitir og hefur jafnvel aldrei gert.


Sjálf get ég ekki hugsað mér samvistir við félaga eða maka án nándar og samband er í mínum huga eitthvað sem báðir eru tilbúnir að vinna að, hreinskilin og nærandi samskipti tveggja einstaklinga með gagnkvæmri virðingu og tilfinningalegum tengslum, snertingu og nánd.


Mitt í netvæðingu einkalífsins held ég að þess verði að gæta að tapa ekki með öllu af persónulegum samskiptum og augnablikum sem gera samvistir tveggja einstaklinga að sambandi. Á síðasta ári rakst ég á litla bók sem mig langar að mæla með fyrir alla sem eru að velta fyrir sér eiginleikum sambanda. Þessi bók vekur manni umhugsun hvort heldur í sjálfskoðun, vangaveltum um lífið og samskipti, eða sem ágætis mælikvarði á það hvort sambandið sem maður er í sé það nærandi samband sem leitað er.


Bókin góða fæst víða í bókabúðum:

Barbara De Angelis, Ph.D. Sönn augnablik elskenda. Útgefin af Leiðarljósi ehf. í þýðingu Guðrúnar G. Bergmann.


Munið að brosa, það kostar ekkert og getur bjargað degi þess sem móttekur það. Bros gefur kærleik og sá sem gefur kærleik er líklegri til að móttaka kærleik :)

fimmtudagur, 24. maí 2007

Þankakrókurinn

hugs... hugs...

Ég hef stundum verið sökuð um að hugsa of mikið... hvort það má teljast til kosta eða lasta er erfitt að segja, sjálfsagt sitt lítið af hvoru. En mér verður oftar en ekki minnisstæður þankakrókurinn hans Bangsimons með tvist í tróð, þar sem hann situr þungur á brún, slær sér á höfuð og kyrjar "hugs, hugs". Þannig upplifi ég mig oft á tíðum þegar ég er að sortera eitthvað í kollinum á mér, sem ég virðist hafa mikla þörf fyrir. Hver árangurinn er... ja, það er allt annar handleggur. Þess vegna ætla ég að skapa minn eigin þankakrók, ekki í hundrað-metra-skógi, heldur hér í netheimum. Blessunin litla, hann Bangsímon, má segja vera mér til fyrirmyndar og því vel við hæfi að hefja þankaganginn á hans orðum.

þriðjudagur, 22. maí 2007

Sýnishorn af ljóðum

Endurfæðing

Um draumalendur ljóðsins

svífur sál mín endurborin


Skömm

Þá þegar

hafði mér birzt hin fagra ásjóna
hennar
er hafði fjötrað mig í draumi

Það var upphafið
af viðskilum hjarta míns
við þitt

Og dómur minn
var skömmin
er hún sveik mig
og hló


Ástin

Ástin var sköpuð

til að vernda mig sannleikanum
er annars myrkvaði mér sýn


Meðan álfarnir dansa

Leika stjörnur um himinhvolf alheimsins

meðan álfarnir dansa
við blikandi bál örlaganna
og framtíðin er rituð
í reykbólstrana er líða til himins

Og handan fjallanna býr mannkyn eitt
þar sem stjörnurnar halda þögn sína
og örlagabálið hefur slokknað
í skjóli borgarljósanna.


Morgunn

Sem örsmár dropi

í haf tímans
líður augnablikið um huga mér
er ég horfi á skipin er sigla að morgni
reisa segl sín við höfnina
og kasta kveðju sinni
á sofandi bæinn
meðan gullinn andvari dagrenningar
líður eins og draumkennd slæða
yfir fjöllin er gæta þessarar stundar
og sólin breiðir hæglát
geisla sína yfir hafið
allt til ystu marka
sjóndeildarhringsins


Piltur og stúlka

Í ofboði brá stúlkan sér í flíkur

er hún sá piltinn nálgast
Með hjarta sitt á silfurfati
- slaufu um það vafið

Hún fór og sótti inniskóna
til að færa honum í staðinn


Til þín

Sem stjarna á næturhimni

skín gleði tilveru minnar
Í órafjarlægð frá þeirri stund
er þú uppgötvar mig
og skilningur þinn á orði mínu
kveikir þinn eigin neista