þriðjudagur, 15. júlí 2008

Eitt ónefnt úr eldra safni

Daggartár fellur af laufi þínu
og glitrar á er það lendir mjúklega í lófa mér
það er lífið sjálft
og ég umlyk það höndum
svo megi það dafna um stund
uns tími er kominn að veita því frelsi á ný

er ég lýk upp lófa mínum
flögrar þar litfagurt fiðrildi
til himins og frjálst

miðvikudagur, 2. júlí 2008

Nýtt líf

Hvað er svo ljúft
sem vermandi geisli
sólar í aftureldingu
Sem brum í þroska
er loforð um kviknandi líf
líkt og nýfundin ást
sem enn á eftir að blómstra

þriðjudagur, 1. júlí 2008

Grímsey


Ég skrapp til Grímseyjar um helgina eins og hver annar ferðalangur með bakpokann á öxlunum og ekkert annað. Þetta er einn af þessum stöðum sem mig hefur alltaf langað að heimsækja og ég ákvað að láta slag standa og stíga fæti norður yfir heimskautsbaug. Enda sé ég ekki eftir því þó veðrið hafi nú verið frekar suddalegt. Grímsey er hrein náttúruperla fyrir útivistarmanninn, paradís fuglaskoðunarmannsins og þar er yndislegt mannlíf. Þarna búa ríflega 90 manns að staðaldri og fiskveiðar eru lífæð þessa notalega litla samfélags. Upplifunin er sú að maður sé langt frá hringiðu heimsins þó aðeins sé þetta steinsnar undan ströndu landsins, eða um hálftíma flug frá Akureyri.


Svo skemmtilega vildi til að ég hitti á afmælismót Sjóstangveiðifélags Akureyrar og því hitti ég þarna fullt af skemmtilegu fólki og gamla kunningja. Á meðan veiðin var í fullum gangi gekk ég hringinn um eyjuna ásamt yndælis konu sem ég kynntist og var þarna ásamt eiginmanni sínum á mótinu. Skarfakál vex þarna um allar trissur og má finna hvar sem er, á bjargbrúnum, innan um grasmóana og meðfram húsveggjum. Mér hefði ekki endst minna en vika hið minnsta í að greina allar þær fuglategundir sem urðu á vegi mínum, en björgin eru krökk af fugli og er lundi þar í yfirgnæfandi meirihluta, einnig mátti sjá álku og teistu auk mávategunda svo eitthvað sé nefnt.




Seinni part dagsins var svo farið til að taka á móti bátunum, þangað mættu allir, stórir sem smáir. Bryggjan iðaði af mannlífi þegar komið var í höfn með sjóbarða veiðimennina og aflanum var landað meðan sígild sjómannalög ómuðu í bakgrunni.



Mæli með Grímsey við alla sem ekki hafa látið af verða að koma þangað !

miðvikudagur, 25. júní 2008

Sumarsólstöður

Ég á það til að taka mig upp um sumarsólstöður og skreppa í útilegu í Skagafjörðinn til að njóta útsýnisins og náttúrunnar, tjalda einhversstaðar í grennd við ættaróðalið og tæma hugann algerlega fjarri allri mannlegri umferð.
Þetta árið varð ég að fresta för þar sem ég lá föst heima í fremur bagalegri kvefflensu, en ég bætti úr því með því að skella mér í "Jónsmessuferð" í staðinn. Tilgangurinn með ferðinni var ekki að leita dulinna töfra, heldur til að finna hina fullkomnu kyrrð í litadýrð hinnar íslensku sumarnætur.
Mér finnst fátt yndislegra en að vera úti í guðsgrænni náttúrunni, heyra ekkert annað en kvakið í fuglum og lækjarnið eða öldugjálfur, finna hvernig hugurinn hreinsast af hversdagslegum ama og værðin færist yfir. Ég tjaldaði í fjörukambi við Höfðaströnd að þessu sinni, fann þar smá grasbala sem nægði til að mýkja annars fremur óreglulegt undirlagið og sofnaði ljúft við náttúrunnar söng.
En ég gerði meira en að sofa þarna í náttúrunnar paradís. Það þætti nú ekki við hæfi annað en að smella nokkrum myndum af dásemdunum, þar sem sólin leikur sér í einfaldleika sínum og varpar nýju ljósi á allt umhverfið.

Að lokum - munið að jákvæðni dregur að sér góða hluti :) Verum jákvæð !

mánudagur, 23. júní 2008

Draumur á Jónsmessunótt

Nú er framundan hin kyngimagnaða Jónmessunótt. Ein þeirra nátta sem samkvæmt þjóðtrúnni er töfrum gædd og huldar verur fara á stjá, óskasteinar birtast á yfirborði jarðar og döggin öðlast lækningarmátt. Ein þeirra fjögurra nátta ársins þar sem allt getur gerst.
Þá er best að velja vel hvar dvelja skal á miðnætti. Munu kýrnar mæla sem menn? Verða huldufólk og álfar á vegi þess er dvelur á krossgötum? Munu óskasteinar glóa í þeirri von um að einhver rambi fram á þá? Mun sá er veltir sér nakinn upp úr dögginni fá allra sinna meina bót? Eða breytist lífið allt í slungið ævintýri á borð það sem gerist í einu af snilldarverkum Shakespeare "A Midsummer Night´s Dream"? Ja, hver veit? Eitt er þó víst að töfrar sýna sig aðeins þeim sem á þá trúir. Að sama skapi og draumar rætast aðeins þeim sem trúa því að þeir geti orðið að veruleika. Þetta er því eingöngu spurning um að líta í eigin barm og kanna hvað þar er að finna, hvort þar finnist trú á hið yfirnáttúrulega í sjálfum okkur. Ef svo er er um að gera að athuga hvort veröldin breytir um ham og gefur okkur innsýn í þennan draumaheim sem nóttin er talin bera í skauti sér.
Sjáum svo til hvað gerist og eigið góðar stundir á Jónsmessunótt, sem og ávallt :)
Fyrir þá sem vilja kynna sér frekar sagnir um Jónsmessunótt og aðrar töfrastundir bendi ég á http://visindavefur.hi.is/ sem og þjóðsögur Jóns Árnasonar og annarra. Verk Shakespeare´s má hvort sem er leigja á næstu myndbandaleigu eða finna í fullri útgáfu á slóðinni:

sunnudagur, 22. júní 2008

Komin á ról

Jæja, þá er ég vöknuð úr dvala og komin á ról. Það er vel við hæfi að byrja á að setja inn nokkrar myndir úr síðasta göngutúrnum mínum, sem ég fór um skjálftasvæðið á suðurlandi á dögunum.


Víða mátti sjá skriður og grjóthrun, þetta bjarg setti svip sinn á austurhlíð Ingólfsfjalls.


Skemmtilegar hraðahindranir á slóðanum undir Ingólfsfjalli sunnan til


Fleytikerlingar niður brekkuna


Hrun í Silfurbergi

Kyrrlátt yfir að líta titrandi jörð


Skemmugafl á Eyrarbakka