miðvikudagur, 25. júní 2008

Sumarsólstöður

Ég á það til að taka mig upp um sumarsólstöður og skreppa í útilegu í Skagafjörðinn til að njóta útsýnisins og náttúrunnar, tjalda einhversstaðar í grennd við ættaróðalið og tæma hugann algerlega fjarri allri mannlegri umferð.
Þetta árið varð ég að fresta för þar sem ég lá föst heima í fremur bagalegri kvefflensu, en ég bætti úr því með því að skella mér í "Jónsmessuferð" í staðinn. Tilgangurinn með ferðinni var ekki að leita dulinna töfra, heldur til að finna hina fullkomnu kyrrð í litadýrð hinnar íslensku sumarnætur.
Mér finnst fátt yndislegra en að vera úti í guðsgrænni náttúrunni, heyra ekkert annað en kvakið í fuglum og lækjarnið eða öldugjálfur, finna hvernig hugurinn hreinsast af hversdagslegum ama og værðin færist yfir. Ég tjaldaði í fjörukambi við Höfðaströnd að þessu sinni, fann þar smá grasbala sem nægði til að mýkja annars fremur óreglulegt undirlagið og sofnaði ljúft við náttúrunnar söng.
En ég gerði meira en að sofa þarna í náttúrunnar paradís. Það þætti nú ekki við hæfi annað en að smella nokkrum myndum af dásemdunum, þar sem sólin leikur sér í einfaldleika sínum og varpar nýju ljósi á allt umhverfið.

Að lokum - munið að jákvæðni dregur að sér góða hluti :) Verum jákvæð !

1 ummæli:

sunja sagði...

vá...geeeeeeðveikar myndir.